Meðferðarferli og nálgun
Meðferðarvinnan byggist á þeirri hugmyndafræði og sýn á manneskjuna að hún
- búi yfir styrkleikum til að takast á við persónuleg vandamál með faglegri aðstoð
- sé gerandi sjálf og geti haft áhrif á líðan sína og stefnu í lífinu
- vilji taka virkan þátt í að endurskilgreina vanda og umskapa möguleika sína
- búi yfir hæfni til að vinna samkvæmt meðferðarsamningi og standa við skuldbindingar í því efni
Þetta á jafnt við um einstaklingsmeðferð, hjónameðferð, pararáðgjöf, sáttameðferð, skilnaðarráðgjöf, fjölskylduráðgjöf og alla aðra persónulega aðstoð ásamt faghandleiðslu.
Form og ferli meðferðar
Meðferðarformið fer eftir aðstæðum og er ákveðið í samráði meðferðaraðila og meðferðarþega. Þegar um hjónabandsmál – stundum kallað hjónbandsþjálfun -
er að ræða koma báðir oftast saman í viðtöl og vinna í sameiningu að því markmiði sem stefnt er að. Stundum hefst greining vandans með einstaklingsviðtölum.
Ýmist er því unnið með parinu, einstaklingi, foreldrum einum eða foreldrum og börnum hvort sem er að ræða um meðferð, ráðgjöf, stuðning eða fræðslu.
Meðferðin getur falist í nokkrum viðtölum eða reglulegum viðtölum yfir lengri tíma samkvæmt meðferðarsamningi. Í fyrra tilvikinu er oftast um leiðbeinandi ráðgjöf eða stuðning
og leiðsögn að ræða, oft tengt ákveðnum, tímabundnum vanda. Með samvinnu í lengri tíma þróast hins vegar nánara meðferðarsamband og hægt að fara nær innsta kjarna manneskjunnar
sem leitar aðstoðar. Þá er ekki aðaláhersla á lausn afmarkaðs vanda heldur á dýpra innsæi og persónulega eflingu gegnum lengra þroskaferli. Það á við bæði um einstaklings- og hjónameðferð.
Meðferðarsamningur
Meðferðarsamningur felur í sér að meðferðaraðili og einstaklingur, hjón eða fjölskylda sem í hlut á, gera með sér samning um upphaf og endi samstarfsins,
en það byggist á gagnkvæmri virðingu og trausti. Trúnaður og þagnarskylda er sjálfgefin. Engin opinber skráning fer fram og skjólstæðingum er tryggð nafnleynd.
Í tengslum við greiningu vandans er komist að sameiginlegri niðurstöðu um lengd meðferðar og hvernig henni verði hagað. Stundum er ástæða til að beina málinu annað, t.d. ef um lyfjagjöf eða aðra
sérhæfða úrlausn er að ræða. Meðan á samvinnu stendur er ekki gert ráð fyrr að aðrir fagaðilar komi að meðferðinni nema það sé liður í meðferðarmarkmiði. Hvort sem um skammtíma eða langtíma samvinnu
er að ræða felst það í meðferðarsamningi að ljúka málinu og loka því sameiginlega, oftast með eftirfylgdarsamtali að ákveðnum tíma liðnum.
Kostnaður
Almennur viðtalstími fyrir einstaklinga er 50 mínútur en 75 mínútur fyrir hjón og fjölskyldur. Kostnaður fylgir vísitölubreytingum.
Flest fag-eða stéttarfélög styrkja ákveðinn fjölda viðtala og mörg sveitarfélög niðurgreiða meðferð hjá löggiltum meðferðaraðilum.
Tími sem fellur niður án afboðunar greiðist samkvæmt samkomulagi.